Það er einföld ástæða fyrir því að ég (Pétur) skrifa þessa færslu, Sigurjón og Atli sjá ekki á tölvuskjáinn, Sigurjón sér reyndar ekki neitt og Atli bara svona brot og brot!
Þannig er mál með vexti að við félagarnir ákváðum að vera glæpsamlega flottir á því í kvöld og fara með gjaldeyri okkar Íslendinga á rándýran og frábæran Brasilískan stað sem bauð upp á stórkostlegar brasilískar (reyndar vöknuðu nú grunnsemdir um þjóðerni sumra þeirra) dansmeyjar sem dönsuðu í takt við sambatónlist hljómsveitar hússins. Þá höfðum við frábæran þjón sem helti rauðvíni í glösin nánast jafnóðum og við drukkum það og það allra besta var maturinn. Fengum 6 rétti og máttum svo biðja um meira af hverju sem við vildum, vorum með spald á borðinu okkar og ef við létum grænu hliðina snúa upp, þá komu þeir með meira kjöt en ef sú rauða snéri upp þá þýddi það að við værum góðir í bili.
Eftir að hafa greitt álíka upphæð og kostar að fara út að borða í Perlunni fyrir þessa máltíð skruppum við svo á nokkra staði og svo var það rétt fyrir utan heimili okkar að eldri maður vatt sér upp að Sigurjóni og sprautaði hann í augun með þessum líka piparúðanum að greyjið drengurinn lá kylliflatur í götunni og Atli hljóp eftir vatni. Þar lá strákurinn í góðan tíma og velti sér upp úr malbikinu ásamt því að sturta vatni yfir sig, eh ungverjar sem voru nálægt hringdu svo á sjúkrabíl en eftir að Atli var búinn að smitast líka af gasinu og var hættur að sjá neitt þá ákváðum við að labba bara heim og koma þeim í bað. Svo ég labbaði þarna með tvo grenjandi karlmenn upp á arminn þessa metra sem eftir voru heim og hefur sjúkrabíllinn því líklega gripið í tómt þegar hann loks kom. Eftir gott hálftíma andlitsbað skelltu þeir drengir sér í háttinn, Atli var þá farinn að sjá aðeins en Sigurjón var enn staurblindur og stokkbólginn í framan. Maðurinn sem fékk nú aldeilis að kynnast svona úðum í lögregluskólanum vildi meina að þetta væri eitthvað mikið sterkara, líklega svokallaður bjarnarúði!
En amk eh til að blogga um og við eigum góðar myndir af þeim félögum að þerra tárin, vonandi svo að þeir sjái eh á morgun, ég nenni ómögulega að vera blindrahundurinn þeirra það sem eftir lifir ferðarinnar.
En annars er það helst í fréttum að efnahagur Ungverja og þar með Forintínan er að hrynja okkur til mikillar ánægju og er gengið nú óðum að nálgast það sama og það var þegar við komum hingað svo hér er allt orðið ódýrt á ný.
Kveðjur frá blindum hryðjuverkamönnum í Buda
Pétur F.
Flokkur: Vísindi og fræði | 18.10.2008 | 03:32 (breytt kl. 03:37) | Facebook
Athugasemdir
Úfff, en heppnir samt að hafa ekki farið í sjúkrabílinn og á spítalann. Ég lenti í skella mér á spítala þarna einu sinni, leið eins og ég var gengin inn á hersjúkrahús í stríðinu þar sem menn voru þarna organdi og gólandi, blóð hreinlega út um allt og lyktina eins og í gamalli fiskverksmiðju í bland við storknað blóð Enginn skildi neitt og ég hreinlega efaðist um að ég fengi að halda fætinumm held að andlitsbaðið heima hafi bara verið góð hugmynd !!
Steinunn Birna (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 12:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.